Hugarfrelsi og Grænfáninn

Goðheimar vinna markvisst eftir Grænfánaverkefnum Landverndar og er skóli á grænni grein ásamt því að vinna eftir hugmyndafræði Hugarfrelsis.

Grænfáninn hefur það hlutverk að leiða skóla í faglegri og árangursríkri vinnu með sjálfbærni í víðum skilningi að leiðarljósi. Það er gert í sterkum tengslum við áherslur aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Hugmyndir Hugarfrelsi byggja á að kenna börnum einfaldar og áhrifaríkar aðferðir sem styrkja sjálfsmynd, velferð og hugarró – allt í anda jákvæðrar sálfræði og núvitundar. Með þessum aðferðum fá börnin tækifæri til að kynnast eigin tilfinningum, læra að róa hugann og byggja upp jákvætt og heilbrigt viðhorf til sjálfra sín.

Á þessu skólaári vinnum við út frá tveimur meginþemum tengdum Grænfánanum og tengjast þau hugmyndafræði Hugarfrelsis vel en það eru lýðheilsa og hnattrænt réttlæti. Með þessum þemum stuðlum við á leikskólanum að því að efla skilning barna á eigin líðan, vellíðan og heilsu, jafnt líkamlegri sem andlegri. Við leggjum áherslu á heilbrigðan lífsstíl, jákvæð samskipti, hreyfingu, leik og mikilvægi þess að hlúa að sjálfum sér og öðrum.

Jafnframt kynnum við börnum hugmyndir um hnattrænt réttlæti með því að ræða um fjölbreytileika, jafnrétti, virðingu og samkennd. Börnin fá tækifæri til að velta fyrir sér hvernig líf fólks getur verið ólíkt víðs vegar um heiminn og hvernig við getum öll lagt okkar af mörkum til að gera heiminn betri stað. Í gegnum leik, sögur, sköpun og samtal eflum við gagnrýna hugsun og skilning á því að allir skipta máli.