Hinseginvika í Árborg

Leikskólinn Goðheimar hefur tekið þátt öll árin sem Hinseginvikan hefur verið haldin og höfum við flaggað regnbogafánanum og á öllum deildum eru einnig litlir regnbogafánar. Lesnar eru bækur sem tengjast hinsegin málefnum og fjölbreytileika. Sem dæmi um bækur ná nefna bókina “Vertu þú” eftir Ingileif Friðriksdóttur og Maríu Rut Kristinsdóttur og “Kroppurinn er kraftaverk” eftir Sigrúnu Daníelsdóttur.

Sveitarfélagið Árborg vill leggja sitt af mörkum til að skapa öruggt umhverfi og að öll verði virkir þátttakendur í samfélaginu og líði vel. Það er ósk okkar að vikan opni hug íbúa fyrir málefninu og að sem flest taki þátt í að fagna með okkur fjölbreytileikanum. Markmið vikunnar er að auka fræðslu, skapa umræður og vera sýnileg.

Skemmtileg og fjölbreytt dagskrá verður hjá stofnunum og fyrirtækum í sveitarfélaginu í tilefni hinsegin vikunnar. Við hvetjum íbúa til að taka þátt, fræðast og fagna fjölbreytileikanum.