Hugarfrelsi
Námsefni Hugarfrelsis byggir á aðferðafræði jákvæðrar sálfræði og núvitundar. Námsefnið miðar að því að efla sjálfsmynd einstaklinga, jákvæðni, núvitund, einbeitingu, tilfinningagreind, draga úr kvíða og auka kyrrð og ró.
Öndun
Góð öndun er grunnur að vellíðan. Hugarfrelsi leggjur því mikla áherslu á að fólk kunni að nýta sér djúpa öndun til heilsubótar. Markvissar öndunaræfingar auka vellíðan og hugarró.
Mjög algengt er að fólk andi of grunnt en til að hægt sé að nýta sér ávinning öndunar sem best er nauðsynlegt að kunna að anda djúpt. Þegar við lærum að nota djúpa þindaröndun þá erum við ekki bara að kenna líkama okkar að slaka betur á, heldur líka að færa honum nægt súrefni og róa hugann.
Einn helsti kostur djúprar öndunar er að hana er hægt að nota án þess að nokkur taki eftir því. Aðalatriðið er fyrst og fremst að muna að nýta sér öndunina við ólíkar aðstæður. Aðstæður sem eru streituvaldandi, þegar maður er ekki í jafnvægi og finnur fyrir kvíða eða vill ná aukinni einbeitingu og hugarró.
Hvenær er gott að nota öndunaræfingar?
- Við tilfinningasveiflum svo sem kvíða, hræðslu og reiði
- Til að auka einbeitingu t.d. við lestur, heimanám og tómstundir
- Til að draga úr spennu
- Til að viðhalda ró, heilbrigði og jafnvægi
- Fyrir svefn
Jóga
Jógafræðin eru yfir 5000 ára gömul og byggja meðal annars á heimspeki, öndunaræfingum, líkamsæfingum og hugleiðsluæfingum. Jógaæfingar hafa áhrif á vöðva, sinar, taugakerfi, innkirtlakerfi, meltingu og hugarástand. Með reglulegri jógaiðkun eflist núvitund, einbeiting eykst, súrefnisupptaka verður betri og blóðflæðið örvast.
Hugarfrelsi kennir jóga í gegnum leik og jógasögur. Við notumst við einfaldar jógaæfingar með dýranöfnum og nöfnum úr nærumhverfinu.
Hvernær er gott að gera jóga?
- Til að brjóta upp daginn
- Til að efla einbeitingu og líkamsvitund
- Til að ýta undir núvitund
- Fyrir slökun og hugleiðslu
Slökun
Slökun er líkamanum nauðsynleg en því miður gefa alltof fáir sér tíma til þess. Í hugum margra er slökun fólgin í því að horfa á sjónvarpið, vera í snjalltækjum, lesa, prjóna o.s.frv. Við þær aðstæður fær líkaminn mögulega hvíld en hugurinn ekki en það er jafn mikilvægt fyrir hugann að fá hvíld eins og líkamann.
Við slökun er algengt að fjöldi hugsana komi upp í kollinn en læra þarf að sleppa taki af þeim án þess að veita þeim eftirtekt eða athygli. Gott er að sjá fyrir sér hugsanir eins og myndir sem maður veitir ekki eftirtekt.
Í slökunarástandi fer af stað úrvinnsla á öllu því sem maður hefur upplifað þann daginn. Þegar slík úrvinnsla hefur farið fram á vökutíma aukast líkur á dýpri nætursvefni því minni tími fer í úrvinnsluna í draumsvefninum. Maður nær lengri djúpsvefni (sem er draumlaus svefn) þar sem líkaminn nær að endurnýja tapaða orku, sinna hefðbundnu viðhaldi og byggja sig upp.
Hugarfrelsi mælir með að fólk gefi sér slökunarstund á hverjum degi og nýti sér slökun óspart þegar streita, ótti, kvíði eða annað tilfinningalegt ójafnvægi gerir vart við sig.
Hvenær er gott að nota slökun?
- Þegar þörf er á að auka kyrrð og ró
- Til að auka einbeitingu
- Fyrir atburði sem skapa eftirvæntingu og spennu svo sem próf, hátíðir, íþróttakeppnir, sýningar og tónleika
- Við andlegt álag (eins og einelti, skilnað, sorg, kvíða) og líkamlegt álag (til dæmis vegna æfinga eða veikinda)
- Fyrir svefn
Hugleiðsla
Hugleiðsla er aðferð til að leiða hugann í ákveðna átt, hægja á hugsunum og finna innri ró. Það má segja að hugleiðsla sé þjálfun fyrir hugann, þjálfun í efla einbeitingu og skerpa á athygli. Í dag eiga margir erfitt með einbeitingu þar sem mikið áreiti er á hugann. Hugleiðsla er því árangursrík leið til þess að efla einbeitingu sína.
Til eru fjölmargar leiðir til að hugleiða og eru hugleiðslusögur, eins og þær sem Hugarfrelsi notar, sú leið sem hentar börnum og byrjendum afskaplega vel. Auðvelt er að sjá fyrir sér hugarferðalagið sem hugleiðslan byggir á. Hugleiðslusögurnar eru mjög myndrænar og ýta undir ímyndunaflið sem er því miður á undanhaldi í þeim hraða heimi sem við búum í. Maður gleymir stund og stað, kemst í betra jafnvægi, endurnýjar orku sína og sjálfsmyndin eflist.
Hvenær er gott að nota hugleiðslu?
- Til að róa hugann
- Til að þjálfa ímyndunaraflið og efla sköpunarkraft
- Þegar áreitið er mikið
- Þegar efla þarf einbeitingu
- Til að auka núvitund, jafnvægi og innri ró
- Fyrir svefn
Sjálfsstyrking
Sjálfsmynd er sú sýn eða skoðun sem við höfum á okkur sjálfum, styrkleikum okkar og getu til að takast á við lífið og tilveruna. Sjálfsmyndin gegnir mikilvægu hlutverki því hún hefur áhrif á mjög margt meðal annars hugsun, hegðun, samskipti, árangur og hamingju. Sjálfsmynd er ekki meðfædd heldur mótast hún alla ævi út frá þeirri reynslu sem við öðlumst hvort sem hún er góð eða slæm. Erfðir, skapgerð og samskipti við aðra (fjölskyldu, vini, kunningja, kennara, þjálfara) geta einnig haft áhrif sem og menning samfélagsins.
Sjálfsmynd getur verið jákvæð eða neikvæð en það fer allt eftir því í hvaða aðstæðum við erum hverju sinni. Við getum því flakkað á milli jákvæðrar og neikvæðrar sjálfsmyndar oft á dag. Því oftar sem við erum í samskonar aðstæðum því öruggari verðum við. Það er hægt að þjálfa sjálfsmynd sína eins og um hvern annan vöðva líkamans væri að ræða.
Öll fæðumst við með ákveðna hæfileika og eftir því sem maður þroskast og eldist geta þessir hæfileikar þróast yfir í styrkleika ef ýtt er undir þá og þeir æfðir. Eitt mikilvægasta verkfærið til að ýta undir jákvæða sjálfsmynd er að efla styrkleika sína. Þess vegna leggjum við hjá Hugarfrelsi mikla áherslu á styrkleikaþjálfun á námskeiðum okkar.
Hvað er hægt að gera til að ýta undir jákvæða sjálfsmynd?
- Koma auga á styrkleika sína
- Þjálfa að minnsta kosti einn styrkleika á hverjum degi
- Vinna með tilfinningar sínar
- Hætta samanburði við aðra
- Setja sér raunhæf markmið