Grænfánaverkefni Landverndar Skólar á grænni grein

10A0030F-9383-4E7F-9E5F-9D139E714801

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt umhverfismenntarverkefni sem haldið er úti af samtökunum Foundation for Environmental Education. Samtökin stofnuðu verkefnið árið 1994 til að svara ákalli og ályktun um þörf á slíku verkefni sem samþykkt var á heimsfundinum í Ríó árið 1992. Landvernd sem eru stærstu náttúruverndarsamtök Íslands varð aðili að samtökunum árið 2000 með það að markmiði að auka og styðja við umhverfismennt, menntun til sjálfbærni og almennt umhverfisstarf í skólum landsins.  Með þátttöku í verkefninu Skólar á grænni grein takast nemendur á við raunverulegar áskoranir og þjálfast í að taka upplýstar ákvarðanir sem tengjast samfélagslegum viðfangsefnum, efnahag og umhverfinu. Námið og viðfangsefni eru tengd heimabyggð og eru verkefnin unnin í samstarfi við stofnanir og fólk í samfélaginu. Verkefnið byggir á getu til aðgerða og hvetur til virkrar þátttöku nemenda í samvinnu við allt skólasamfélagið. Skólar stýra vinnunni í kringum verkefnið sjálfir, setja sér markmið og fylgja þeim eftir. En meginmarkmið verkefnisins eru að:

  • bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.
  • efla samfélagskennd innan skólans.
  • auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.
  • styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.
  • veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.

Nánari upplýsingar má finna á heimasíðu Landverndar https://landvernd.is/graenfaninn/

 

 

  Fundargerðir Sjálfbærniráðs

Umhverfissáttmáli Goðheima  

Umhverfissáttmáli Goðheima hefur það að markmiði að börn og starfsfólk læri að vernda og bera virðingu fyrir heilsu sinni, náttúrunni og umhverfi.  Við erum minnug þess að „Við fengum jörðina ekki í arf frá forfeðrum okkar við höfum hana að láni frá börnum okkar".